Færsluflokkur: Menning og listir
11.1.2008 | 23:32
Fyrsta prjónakaffið árið 2008 á Amokka í Hlíðarsmára.
Fimmtudaginn 3.janúar 2008 var fyrsta prjónakaffið á árinu. Fundar og fræðslunefnd Heimilisiðnaðarfélagsins hefur tekið að sér að sjá um það í framtíðinni.
Við þökkum norrænu nefndinni og Handprjónasambandinu fyrir frábær störf við að koma þessu á laggirnar. Það fer ekki á milli mála að Prjónakaffið er komið til að vera. Með litlum fyrirvara,stuttu eftir jól og áramót, mættu 80-90 kátar og hressar konur í Amokka í Hlíðarsmára. Áhuginn var slíkur að kl.19.15 mættu þær fyrstu á staðinn. María og hennar fjölskylda var að mæta á svæðið og allir voru boðnir velkomnir. Ekki vandamál á þessum stað. Dömurnar og einn ungur piltur sem kom með prjónana sína (því miður var enginn prjónakarl) fengu sér kaffi og með því, já þvílíkar kræsingar, og svo var byrjað að prjóna, skiptast á uppskriftum, hugmyndum, læra hver af annarri og dáðst af því sem hinar voru að gera. Algjörlega frábært kvöld. Bjargey Ingólfsdóttir iðjuþjálfi, kynnti frábæra stuðningspúða sem hún hefur hannað. Púðana er hægt að skoða á heimasíðu hennar www.bara123.
Á þessari blogsíðu er hugmyndin að vera með kynningu á prjónakaffi framtíðarinnar, tímasetningu, dagskrá, tilboðum og það sem upp kemur hverju sinni. Þetta er líka hugsað fyrir alla þá sem vilja koma hugmyndum á framfæri varðandi prjónakaffið. Allt er vel þegið.
Allir sem hafa gaman af samverustund með prjóna, prjónalausir eða með aðra handavinnu eru velkomnir, þetta er sko okkar kvöld á Amokka, fyrsti fimmtudagur hvers mánaðar.
Sjáumst næst fimmtudaginn 7. febrúar. Það koma nánari upplýsingar mjög fljótlega.
Kveðja fyrir hönd ff Solveig.
Menning og listir | Breytt 13.1.2008 kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)